154. löggjafarþing — 99. fundur,  19. apr. 2024.

fjármálaáætlun fyrir árin 2025--2029.

1035. mál
[16:38]
Horfa

háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra (Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir) (S):

Virðulegur forseti. Varðandi samkeppnishæfni og nemendurna þá höfum við lagt ríka áherslu á að fá fleiri inn í háskóla. Við höfum verið með átök um að stækka framtíðina og fá fleiri stráka í háskóla. Við fengum 13% aukningu í fjölda stráka í Háskóla Íslands í fyrsta sinn, sem skiptir auðvitað miklu máli gagnvart samkeppnishæfni okkar af því að það vantar háskólamenntaða sérfræðinga í fjölmörg störf. Kjaramál háskólamenntaðra eru síðan sérkapítuli út af fyrir sig. Krónutöluhækkanir hafa dregið úr því að háskólanám borgi sig í krónum og aurum þegar fólk reynir að reikna það út og það er vandamál sem við leysum ekki í háskólunum sjálfum en þarf að líta á heildstætt í umræðu í samfélaginu.

Varðandi stuðningskerfi Menntasjóðsins þá tek ég bara undir með hv. þingmanni. Breytinga sér kannski ekki alveg stað í fjármálaáætlun, enda var búið að gera mikla áætlun um hækkun með síðustu breytingum. Búið var að gera grein fyrir því að þær væru kostnaðarmeiri, að fleiri myndu taka námslán og úr því rættist ekki. Búið var að gera áætlanir um að miklu fleiri myndu nýta sér kerfið og það yrði í raun enn kostnaðarsamara en það hefur síðan reynst. Við erum að reyna að vinna innan þess ramma í því hvernig við komum til móts við þessa stöðu sem hv. þingmaður lýsir svo vel. Það er gríðarlega mikilvægt að Menntasjóðurinn nái markmiðum sínum um að tryggja jöfn tækifæri til náms og maður er hræddur um að það markmið hafi aðeins glatast miðað við þann árangur sem við erum að sjá af breyttu kerfi.

Annars tek ég undir með hv. þingmanni um mikilvægi þess að fá fólk í háskóla, að fá fjölbreyttan hóp fólks. Ég hef reynt að stuðla að því með mörgum breytingum. Ein af þeim er að tryggja jafnt framlag til einkarekinna og opinberra háskóla, svo er átak gagnvart strákum sem og Stækkaðu framtíðina, sem hvetur kannski þessa yngri nemendur, alveg niður í grunnskóla, að sjá fyrir sér fleiri tækifæri og fjölbreyttari störf heldur en þeir sjá endilega heima fyrir.